Velkomin á Hótel Rauðuskriðu

Hótel Rauðaskriða er fjölskyldurekið hótel við veg 85 á milli Húsavíkur og Akureyrar. Við erum staðsett í miðri sveitakyrrðinni og erum tilvalinn gististaður til að vera á ef heimsækja á áhugaverðustu staði á Norðausturlandi eins og Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Dimmuborgir, Ásbyrgi, Sjóböðin á Húsavík, nú eða skella sér í hvalaskoðun á Húsavík eða Akureyri.

Hótel Rauðaskriða hóf rekstur 1990 og það voru foreldrar Halla, Kolbrún og Jóhannes, sem byrjuðu þá að leigja út tvö herbergi í húsinu sínu (sem nú er aðalbyggingin) til ferðamanna. Árið 1991 byggðu þau aðra hæð ofan á aðalbygginguna og í gegnum tíðina hefur hefur herbergjum og byggingum smátt og smátt fjölgað og aðstaðan stækkað og batnað.

selfie

Árið 2012 urðu kynslóðaskipti í rekstrinum þegar við, Halli og Begga, ásamt börnum okkar, Ragnari, Katrínu og Huldu, keyptum reksturinn. Ekki má gleyma sérlegum aðstoðar„mönnum“ okkar, köttunum Grímu og Krumma og kanínunni Lúðvík Van Beethoven sem er nú alltaf kallaður Lúlli. Þau eru sannarlega ómissandi hluti af hópnum og vekja jafnan mikla lukku gestanna okkar.

Við höfum alltaf aðhyllst umhverfis- og náttúruvernd og það er líklega ekkert eðlilegra þegar maður er alinn upp í sveit og í nánum tengslum við náttúruna og veit hversu viðkvæm hún getur verið og hve mikilvægt er að hugsa vel um hana. Með það að leiðarljósi hófu Kolbrún og Jóhannes þá vegferð að fá vottun Norræna Svansins (Nordic Eco-label) árið 2010 og ári síðar var Hótel Rauðaskriða vottað í fyrsta sinn. Á þessum tíma var það eina hótelið á Íslandi með vottun Norræna Svansins og það hefur haldið henni alla tíð síðan. Nú hafa önnur hótel bæst í þennan hóp og það er frábært að fleiri skuli taka þetta ábyrga og mikilvæga skref.

Hótel Rauðaskriða var fyrsta hótelið á Íslandi til að fá vottun íslenska gæðakerfisins Vakans og við héldum þeirri vottun í 5 ár. Við hins vegar mátum það svo að almenn þekking á Vakanum væri ekki mikil og engin meðal erlendra gesta og til að minnka kostnað við leyfisgjöld ákváðum við að hætta formlega í Vakanum en fylgja áfram þeim kröfum og siðareglum sem þar eru. Við nýtum umsagnir af helstu bókunarsíðum auk þess sem við gerum reglulega kannanir meðal gesta á hótelinu til að sjá hvað vel er gert og hvað betur má fara. 

Þar sem við erum staðsett í sveit og upprunalega bændagisting þá erum við hluti af Hey Ísland sem einu sinni hét Ferðaþjónusta bænda. Árið 2012 vorum við valin „Bær mánaðarins“ þegar sú herferð hófst og einnig höfum við fengið hvatningarverðlaun á þeim vettvangi í tengslum við fuglaskoðunarferðir sem við bjóðum upp á, aðallega á vorin og fyrri part sumars.

Í dag getum við hýst um 100 gesti í næturgistingu og við erum með veitingastað sem býður upp á fjölbreyttan matseðil. Við stefnum á að hafa þetta áfram fjölskyldurekinn stað og veita persónulega og góða þjónustu og bera umhyggju fyrir náttúrunni og umhverfinu.

Verið hjartanlega velkomin til okkar.
Halli, Begga og fjölskylda.

eco-labelling